Þokusól

Höfundur: Örn Friðriksson

Textahöfundur: Einar Benediktsson

Bak við þokubakka tjöldin
bíða í vestri rökkurkvöldin.
Nú er sól og sumardagur.

Sortaský af geislum rofin,
bjarmi í tún og engjar ofinn.
Úðabogi dýrðarfagur
tengir saman haf og hauður.
Hvíld og kyrrð um alla jörð.

þvílíkt yndi að hlýða og heyra
hreinna strauma nið við eyra,
líta á hvernig loftsins hjörð
læðist hægt um rakan svörð,
leitar hreiðra um hóla og börð.


Hátt í suðri er glampi rauður
en í kring sem eldbjört gjörð.
Dögg og ljós, alls lífsins auður,
leiðast, brosa' um strönd og fjörð.
Nú er sjálfur dauðinn dauður.

Margir langir ljósir dagar
líða fyrr en vetur kemur.
Blómið lifir mér þó skemur.
Skyldi ég því ei fagna fremur?

Fyrir handan vetrarkvöldin
sé ég glampa á sólartjöldin
Mikla drottning láðs og lagar,
ljóssins móðir skín mér hátt.
Kom að nýju úr austurátt.
Unn mér! Brjóttu rökkurvöldin.